Þú gætir glatað vöðvamassa með því að gera þessa hluti

Ef þú ert að taka vel á því þessa dagana í ræktinni en ert eftir sem áður að glata vöðvamassa er líklegt að þú sért að gera eitthvað vitlaust, bæði innan sem og utan veggja líkamsræktarstöðvarinnar. Það eru fáeinir þættir sem þarf að hafa í huga þegar kemur að því að byggja upp og viðhalda vöðvamassa og ennfremur eru nokkrir þættir, eða hegðunarmynstur, sem getur verið skaðlegt fyrir vöðva líkamans

Hér að neðan eru fjórir hlutir sem þú skalt gæta að þegar kemur að því að viðhalda og byggja upp vöðvamassa.

Þú tekur of mikið af bólgueyðandi lyfjum

Ef þú tekur bólgueyðandi lyf oft yfir daginn eða í of stórum skömmtum getur það haft áhrif á vöðvamassann og getu vöðvanna til þess að stækka og mótast. Náttúruleg bólga í vöðvum sem myndast eftir stífar æfingar getur hjálpað við uppbyggingu próteins og hraðað endurheimtu styrks og vöðvamassa. Þegar hins vegar bólgueyðandi lyf eru tekin í miklu magni, getur það komið í veg fyrir eðlilega myndun vöðvamassa.

Þú borðar ekki nóg af fiski

Ef þú færð ekki nóg af Omega 3 fitusýrum gætir þú misst vöðvamassa. Omega 3 fitusýrur hjálpa líkamanum að viðhalda insúlín næmi í vöðvafrumunum og hjálpa vöðvunum þannig að nýta prótein úr fæðunni til fulls. Þegar insúlín næmi er mikið kemur það í veg fyrir að líkaminn brjóti niður vöðvamassa.

Þú leggur of mikla áherslu á þolæfingar

Ef þú leggur of mikla áherslu á þolæfingar og of litla áherslu á styrktaræfingar fær líkaminn ekki nægan tíma til þess að byggja upp vöðva og viðhalda vöðvamassa. Styrktaræfingar, svo sem lyftingar og spretthlaup, hjálpa líkamanum að byggja upp vöðva auk þess að styrkja liðbönd og flýta fyrir bata eftir erfiðar æfingar. Miklar þolæfingar aftur á móti geta gengið á vöðvabirgðir líkamans og valdið því að sá vöðvamassi sem þú hefur byggt upp glatast skjótt.

Þú drekkur ekki nóg af vatni

Vatn gefur vöðvunum orku en ef vöðvafrumur líkamans fá ekki nægan vökva getur það valdið vöðvaþreytu sem að endingu tefur og jafnvel kemur í veg fyrir uppbyggingu vöðvamassa.

Þessi grein birtist upprunalega á Men‘s Health

DEILA FRÉTT