Tengsl milli sykurs og þunglyndis hjá karlmönnum

Nýleg rannsókn á vegum James Cook háskólans í Ástralíu, sem birtist í Scientific Reports Journal, gefur til kynna að sykur geti ýtt undir þunglyndi hjá karlmönnum. Niðurstöður rannsóknarinnar bætast þannig við fjölda annarra rannsókna sem sýna fram á skaðleg áhrif sykurs á heilsu fólks.

Í rannsókninni var átta þúsund þátttakendum fylgt eftir í 22 ár þar sem fylgst var með matarræði viðkomandi og læknisheimsóknum á nokkurra ára fresti. Með því að greina hvaða heilsufarslegu vandamál þátttakendur rannsóknarinnar glímdu við gátu rannsakendur séð tengsl milli andlegra- og líkamlegra vandamála og matarræðis viðkomandi. Það sem stóð einna helst út úr niðurstöðunum var sú staðreynd að karlmenn sem borðuðu yfir 67 grömm af viðbættum sykri á dag voru 23% líklegri til þess að kljást við þunglyndi á 5 ára tímabili, samanborið við menn sem borðuðu minna en 40 grömm af viðbættum sykri á dag.

Við upphaf rannsóknarinnar voru engir þátttakendur að sækja meðferð við andlegum veikindum. Tengslin milli sykurneyslu og þunglyndis komu strax fram á fyrstu fimm árum rannsóknarinnar og voru sýnileg út allt rannsóknar tímabilið. Þá gátu rannsakendur einangrað tengslin og útilokað að hinar ýmsu fylgibreytur gætu haft áhrif, s.s. efnahagsleg staða, hreyfing, neysla áfengis, reykingar, aðrar matarvenjur eða líkamsþyngd. Aftur á móti gátu rannsakendur ekki sýnt fram á sömu tengsl meðal kvenna en ekki er vitað hvers vegna.

Það skal þó tekið fram að slíkar rannsóknir eru ekki gallalausar þar sem þátttakendur greindu sjálfir frá eigin matarræði. Þannig er ekki hægt að fullyrða um orsök (sykur) og afleiðingu (þunglyndi) en þó voru tengslin það sterk að nauðsynlegt er að vekja athygli á niðurstöðunum sem gefa umræðu um skaðleg áhrif sykurneyslu byr undir báða vængi.

Við hvetjum þig því, lesandi góður, að fara varlega í vínarbrauðið í kaffinu í dag og minnum á að allt er gott í hófi, þá sérstaklega sykur!

DEILA FRÉTT