Svefnleysi getur leitt til kvíða og þunglyndis

Fólk sem sefur minna en átta klukkustundir á nóttu er líklegra til að þjást af kvíða og þunglyndi, samkvæmt nýrri rannsókn.

Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur fram að fólk sem ekki fær nægan svefn á erfiðara með að takast á við neikvæðar hugsanir og losa sig við neikvæðar tilfinningar, samanborið við þá sem fá nægilega mikinn svefn.

Þátttakendur rannsóknarinnar fóru í gegnum viðtöl þar sem þeir greindu frá svefnmynstri sínu og í kjölfarið voru þeim sýndar ljósmyndir sem áttu að kalla fram tilfinningaleg viðbrögð, auk hlutlausra ljósmynda. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að fólk sem svaf minna en 8 klst á nóttu eyddu meiri tíma í að horfa á tilfinningalega neikvæðar ljósmyndir og áttu erfiðara með að hætta að skoða slíkar ljósmyndir.

Rannsakendur framkvæma nú frekari rannsóknir með það að leiðarljósi að finna út hversu langan svefn fólk þarf til þess að vera betur í stakk búið að berjast gegn slíkum hugsunum, kvíða og þunglyndi.

Þannig er vonast til þess að sálfræðingar geti einn daginn meðhöndlað kvíða og þunglyndi með því að leiðbeina fólki varðandi svefnmynstur og hvíld.

DEILA FRÉTT