Sjónvarpsgláp og áhrif þess á heilann

Er skaðlegt að taka alla aðra seríu af Stranger Things í heilu lagi yfir helgina?

Öll þekkjum við tilfinninguna að koma heim eftir langan dag í vinnunni og það eina sem við viljum gera er að hlamma okkur niður í sófann og horfa á gott sjónvarpsefni. Áður en þú veist er komið miðnætti og þú ert komin langleiðina með hálfa seríu af uppáhalds sjónvarpsþáttunum þínum. Þreytan leggst yfir þig en þig langar að taka einn þátt í viðbót. Þú ert tilbúin að taka afleiðingum þess daginn eftir, enda fátt betra en að horfa á einn þátt í viðbót!

Þetta gerist fyrir okkur öll, þökk sé nýjustu tækni sem gerir okkur kleift að horfa á sjónvarpsefni þegar við viljum, í eins miklu magni og við viljum.

Samkvæmt nýlegri rannsókn horfir fólk í Bandaríkjunum að meðaltali á sjónvarp í 2,7 klukkustundir á dag. Það gerir samtals sirka 20 klukkustundir á viku.

Önnur rannsókn sem beindi sjónum sínum að Netflix leiddi í ljós að 61% notenda efnisveitunnar horfa á 2-6 sjónvarpsþætti í röð og flestir Netflix notendur kjósa að klára seríur á einni viku í stað þess að dreifa áhorfinu yfir lengra tímabil. Sem dæmi, samkvæmt áhorfstölum frá Nielsen, horfðu 361 þúsund manns á alla aðra seríu af Stranger Things á einum degi, nánar tiltekið daginn sem hún kom út.

En hvað gerist í heilanum okkar þegar við horfum svo lengi í senn á sjónvarpsefni?

Þegar þú horfir á þátt eftir þátt líður þér vel en ástæða þess er sú að á meðan á sjónvarpsglápinu stendur framleiðir heilinn dópamín sem gefur líkamanum aukna vellíðunartilfinningu. Þú bregst því við með því að horfa á fleiri þætti, þar sem þú vilt ekki missa þessa góðu tilfinningu. Þannig upplifir líkami þinn nokkurs konar vímu, vegna dópamín framleiðslu heilans og þú upplifir einskonar fíkn í sjónvarpsþáttinn, segir doktor í sálfræði, Rene Caar.

Hún segir janframt að þessi upplifun okkar sé nátengd þeirri upplifun sem fíklar upplifa gagnvart fíkniefnum, kynlífi eða annarri fíkn. Samkvæmt henni getur líkaminn orðið háður öllu því sem eykur dópamín framleiðslu heilans.

Önnur ástæða þess að okkur líður vel þegar við horfum á sjónvarpsþætti er, samkvæmt geðlækninum Gayani DeSilva, tenging okkar við persónurnar í sjónvarpsþáttunum. Þegar við horfum á sjónvarpsþátt virkjum við sama svæði í heilanum og virkjast þegar við upplifum raunverulega atburði. Þannig skapar heilinn minningar út frá sjónvarpsþættinum, við sogumst inn í líf persónanna og myndum raunveruleg tengsl við líðan þeirra og velgengni. Ennfremur samsvörum við okkur með ákveðnum persónum í þáttunum og tengjumst þeim ákveðnum tilfinningalegum böndum. Þannig verður til nokkurskonar óskhyggja um að líf persónanna væri í raun líf okkar, sem gerir það að verkum að okkur líður vel að horfa á persónurnar og þann ævintýraheim sem þær lifa í, segir DeSilva. Þessar tilfinningar ýta undir enn meira áhorf.

Aðrar ástæður óhóflegs sjónvarpsáhorfs geta líka verið tengdar stressi, þ.e. stressleysi réttara sagt, en sjónvarpsáhorf getur dregið úr stressi og hjálpað áhorfandanum að hreinsa hugann og slökkva á hugsunum sem valda streitu og kvíða. Að sama skapi getur sjónvarpsáhorf hjálpað fólki að mynda tengsl við aðra sem horfa á sömu sjónvarpsþættina.

Hvaða neikvæðu áhrif getur of mikið sjónvarpsáhorf haft á líf okkar.

Þegar sjónvarpsþættirnir eru komnir á enda getur áhorfandinn fundið fyrir tilfinningum á borð við missi, depurð og jafnvel þunglyndi. Auk þess hafa rannsóknir sýnt fram á að þeir sem horfa á sjónvarpsefni lengi í senn upplifa meira stress, kvíða og þunglyndi. Ástæðurnar eru margþættar og ein af þeim er sú staðreynd að þegar einstaklingur sekkur niður í sjónvarpsgláp á hann það til að eingangra sjálfan sig frá fjölskyldu, vinum, kunningjum og samfélaginu í heild sinni. Þar með hverfa tilfinningaleg tengsl hans við annað fólk en þau tengsl eru í eðli sínu mun sterkari og áhrifameiri og leiða til aukinnar hamingju, samanborið við þau tengsl sem áhorfandinn skapar við persónur sjónvarpsþáttanna.

Hvernig er hægt að horfa hóflega á sjónvarp?

Besta leiðin til þess að fá alla kosti þess að horfa á gott sjónvarpsefni, án þess þó að eiga hættu á að verða fyrir neikvæðum afleiðingum þess, er að horfa hóflega mikið á sjónvarp og skammta þér tíma. Gættu þess líka að viðhalda raunverulegum tengslum við fjölskyldu, vini og kunningja. Eftir sjónvarpsáhorfið, farðu út meðal fólks, taktu góða líkamlega æfingu eða annað þess háttar.

Þessi grein birtist á heilsuvef NBC News

 

 

 

DEILA FRÉTT