Á undanförnum árum hafa komið fram rannsóknir sem sýna fram á að drykkja í hófi geti bætt heilsu þína og jafnvel lengt lífið. Á sama tíma hefur WHO (World Health Organization) gefið út yfirlýsingar þess efnis að áfengi, sama í hversu miklu magni, sé ekki öruggt. Fólk stendur því gjarnan ráðþrota gagnvart spurningunni um hvort áfengi í hófi sé ráðlagt eður ei.

Spurning þessi fékk svo enn og aftur athygli þegar ný skýrsla sýndi fram á að drykkjuvandamál í Bandaríkjunum hafi aukist að undanförnu. Sérstaklega hafði vandinn aukist meðal kvenna, minnihlutahópa og eldra fólks sem og þeirra sem hafa lágt menntunarstig og lágar tekjur.

Önnur rannsókn sem kom út á dögunum ætti hins vegar að gleðja hófdrykkju menn og konur en rannsóknin sýndi fram á að þeir sem drekka í hófi (minna en þrjá drykki á viku) minnka líkurnar á því að deyja fyrir aldur fram um 20%. Líkurnar á því að deyja úr hjartasjúkdómum lækkuðu einnig umtalsvert.

Þeir sem drekka hins vegar í óhóflegu magni mældust í töluvert meiri hættu en þeir voru 27% líklegri til þess að deyja úr krabbameini og 11% líklegri að deyja fyrir aldur fram.

„Það er nokkuð ljóst að óhófleg drykkja er skaðleg heilsu þinni, á nánast alla vegu“ – sagði prófessor  Kenneth Mukamal, sem starfar við Beth Israel Deaconess sjúkrahúsið í Boston.

Önnur rannsókn sem nýlega kom út gaf til kynna að hófleg drykkja getur komið í veg fyrir sykursýki 2 og hjartaáfall en aftur á móti hafa rannsóknir sýnt fram á tengsl milli áfengis og brjóstakrabbameins. Þá hafa rannsóknir einnig sýnt fram á skaðleg tengsl milli drykkju og heilastarfsemi. Þannig sýndi rannsókn frá júní á þessu ári fram á skaðleg áhrif áfengis á heilastarfsemi, en þátttakendur rannsóknarinnar voru skilgreindir sem meðal drykkjufólk og drakk á bilinu 14-21 drykki á viku.

Dr. Suzanne Steinbaum, framkvæmdastjóri Women‘s Heart Health við Lenox Hill spítalann í New York telur enga rétta leið vera þegar kemur að áfengi og þol hvers og eins sé persónubundið. Þá hafa aðrir þættir áhrif, s.s. þyngd, aldur, hreyfing sem og almennt heilbrigði einstaklings. Þá geta hin ýmsu lyf sem fólk notar með aldrinum haft slæm áhrif á líkamann ef þeim er neytt samhliða áfengi.

Dr. Mukamal bendir á að fólk ætti að ræða þessi mál við lækninn sinn en ítrekar jafnframt að læknum nú til dags skorti rannsóknir til þess að geta sagt með fullri vissu um hversu mikið magn áfengis bæti eða skaði heilsu þína. Hann vonast þó til að eftir 10 ár verði hægt að fullyrða með nokkurri vissu um skaðsemi/hjálpsemi áfengis en þar til þá verði fólk að vega og meta kosti sem og áhættur þess að drekka áfengi.

Grein þessi birtist á vefsíðu WebMD

 

 

DEILA FRÉTT