Hversu mikið prótein þarftu daglega?

Ertu í vafa um hversu mikið prótein þú ættir að innbyrða daglega? Ráðlagður dagskammtur, oftast táknað sem RDA, segir til um lágmarks magn af næringarefnum þú þarft til þess að vera heilbrigður. Samkvæmt RDA ættir þú að innbyrða 0,8 gr af próteini fyrir hvert kg af líkamsþyngd. Það þýðir að 80kg maður þarf að lágmarki 64gr af próteini á dag. Þessar tölur miða við einstaklinga sem hreyfa sig í hófi.

Það getur hins vegar verið gott að velta fyrir sér eigin lífsstíl þegar kemur að ráðlögðum prótein skammti en það gefur auga leið að þeir sem hreyfa sig meira þurfa meira magn af próteini, samanborið við þá sem hreyfa sig lítið. Þá þarftu meira prótein ef þú ert að byggja upp vöðvamassa eða losna við aukakílóin.

Í raun ættir þú að auka prótein inntöku þína ef…

Þú ert að reyna að léttast

Það tekur líkama þinn lengri tíma að melta prótein heldur en kolvetni. Fyrir vikið verður þú saddari og borðar minna ef máltíðin inniheldur meira prótein. Þannig dregur prótein úr matarlyst og kemur í veg fyrir ofát.

Þú ert komin á miðjan aldur

Í rannsókn frá árinu 2015 kom í ljós að fullorðið fólk yfir fimmtugt sem borðaði yfir 1,5gr af próteini á hvert kg átti auðveldara með að byggja upp og viðhalda vöðvamassa, samanborið við fólk á sama aldri sem hélt sig við ráðalagðan dagskammt.

Þú ert dugleg/ur að hreyfa þig

Ef þú ert að hreyfa þig að minnsta kosti 30-40 mínútur, 5 sinnum í viku, ættir þú að íhuga að bæta við þig próteini. Reyndu að borða 1,2-2 gr af próteini fyrir hvert kg af líkamsþyngd þinni, á hverjum degi. Þannig ætti kona sem vegur 60kg að neyta allt upp í 120gr af próteini, svo lengi sem hún æfir stíft.

Þessi grein er byggð á grein sem birtist í veftímariti Health.

DEILA FRÉTT