Hvað skal borða þegar flensan gerir vart við sig

Þegar þú ert með inflúensu er eina sanna lækningin góð hvíld og þolinmæði. Það er enginn matur eða drykkur sem mun fríska þig upp á augabragði. Það er hins vegar mikilvægt að ganga úr skugga um að þú fáir  nægan vökva og að þú sért að borða næringarrík matvæli en það getur hjálpað til við að tryggja að þér líði betur og þú verðir fljótari að jafna þig.

Hér að neðan má finna nokkra drykki og fæðutegundir sem geta hjálpað þér að berjast við flensu einkennin.

Kókosvatn eða Gatorade

Það er gríðarlega mikilvægt að fá nægan vökva þegar þú ert að kljást við veikindi, þá sérstaklega þegar um ælupest er að ræða. Að drekka vatn er góð og gild leið til þess en oft getur verið ágætt að fá sér drykki sem innihalda steinefni, vítamín og önnur nauðsynleg næringarefni. Kókosvatn og Gatorade innihalda svokölluð „electrolyte“, einskonar steinefni, sem koma í veg fyrir að þú þornir upp.

Grænt te

Þegar kemur að því að tryggja nægan vökva í líkamanum getur verið gott að drekka grænt te. Þá er jafnvel hægt að bæta út í smá hunangi sem getur hjálpað til að mýkja upp hálsinn þegar um hálsbólgu er að ræða. Auk þess inniheldur grænt te andoxunarefni sem gætu hjálpað líkama þínum að ná sér fyrr af flensunni.

Kjúklingasúpa

Næringarefni sem finna má í kjúklingasúpu (kjúklingur og grænmeti) geta svo sannarlega komið sér vel í baráttunni við flensuna. Kjúklingasúpa inniheldur allra jafna prótein, B-vítamín, steinefni og önnur mikilvæg næringarefni sem hjálpa m.a. hvítu blóðkornunum að sigrast á sýklum.

Baunir

Líkt og kjúklingur þá innihalda baunir ríkt magn af próteini og henta vel fyrir grænmetisætur

Litríkir ávextir og grænmeti

Andoxunarefni geta svo sannarlega bætt heilsu okkar og þegar flensan gerir vart við sig er sérstaklega gott að borða matvæli sem eru rík af andoxunarefnum. Andoxunarefni viðhalda heilbrigði líkamans og styrkja ónæmiskerfið. Dæmi um matvæli sem eru stútfull af næringarríkum andoxunarefnum eru til dæmis bláber.

Appelsínudjús

Þegar kemur að ónæmiskerfinu er vítamín C svo sannarlega mikilvægt. Hreinn appelsínusafi inniheldur verulegt magn af C-vítamíni og því tilvalin viðbót við flensu-matarræðið. Gættu þess þó að drekka ekki of mikið þar sem of mikið C-vítamín, í einum skammti, getur valdið óþægindum í þörmum og meltingarvegi.

Engifer

Margir grípa gjarnan í engifer þegar flensan lætur á sér kræla en engifer hjálpar til við að draga úr bólgum í líkamanum, sem gjarnan er fylgifiskur flensu. Engifer gagnast þegar kemur að því að minnka ógleði og flökurleika. Rannsóknir á seinni árum hafa leitt í ljós gagnsemi engifers gegn þrálátum verkjum í líkama ásamt því að lækka blóðþrýsting.

DEILA FRÉTT