Hinar nýju reglur stefnumótamenningarinnar

Það liggur ekki alltaf ljóst fyrir hvernig einstaklingur á að haga sér þegar kemur að stefnumótum og stefnumótamenningunni. Þegar áhuginn kviknar þykir þér ef til vill nokkuð sjálfsagt að senda viðkomandi nóg af hrósi, játa strax ást þína og passa að smella á like við allar myndirnar þeirra á samfélagsmiðlunum. Þeir sem þekkja til stefnumótamenningarinnar munu hins vegar slá þig utan undir og senda þig rakleiðis í skammakrókinn ef þú lætur slíkt eftir þér.

Reglurnar eru sífellt að breytast og með tilkomu Tinder og annarra stefnumótaforrita eru margir sem upplifa sig sem algjörar risaeðlur á stefnumótamarkaðinum.

Það skal þó ekki örvænta, vefurinn Ask Men tók saman góðar ráðleggingar frá nokkrum sérfræðingum á þessu sviði sem ættu að nýtast við makaleitina.

 

Jon, bloggari og eigandi verðlaunasíðunnar The things I‘ve done to impress women

Það góða: Einu ráðin sem hafa staðist tímans tönn eru hreinskilni, örlæti og opið hjarta. Og já, þolinmæði!

Það slæma: Endalausir möguleikar. Með nútíma tækni er hægt að vera að tala við margt fólk í einu og halda þeim öllum heitum án þess þó að taka eitthvert sambandið skrefinu lengra. Vandamálið við þetta er að á meðan þú heldur öllum heitum minnka möguleikarnir á að þú takir af skarið með einhverju þeirra.

Það allra versta: Það sem kallast „Ghosting“ á enskri tungu en mætti þýða sem „feluleikurinn“. Oft á tíðum fer fólk í feluleik, þykist ekki taka eftir einstaklingnum, segist ekki hafa séð sms-in frá þeim og svarar ekki Facebook skilaboðunum. Hættið þessu! – það finnst öllum þetta hundleiðinlegt og dónalegt í meira lagi!

 

Lauren Crouch, bloggari og eigandi bloggsíðunnar No bad dates, Just good stories

Það góða: Ekki taka sjálfa/n þig of alvarlega! Það er sérviskan þín og kjánalegu mannkostirnir sem láta þig standa upp úr. Hreinskilni skiptir líka höfuðmáli. Sem dæmi, ef þú ert að nota Tinder til þess einungis að sofa hjá, ekki segja fólki að þú sért að leita þér að sambandi. Að sama skapi, ef þú ert í maka leit, ekki vera hrædd/ur við að segja það. Þeir sem eru hreinskilnir og segja hug sinn eru aðlaðandi og sýna sjálfstraust.

Það slæma: Í dag eru mun fleiri sem eru að hittast reglulega en segjast ekki vera í sambandi. Hræðslan við að taka sambandið skrefinu lengra hefur aukist.

Það allra versta: Komdu fram við hana eða hann eins og þú hafir ekki áhuga, jafnvel þótt þú sért yfir þig hrifin/n. Þetta er mesta bull í heimi. Ef þú hefur fundið þann eina rétta eða einu réttu, láttu viðkomandi vita af því áður en það er um seinan.

 

Charly Lester, stofnandi The Dating Awards

Það góða: Losaðu um pressuna og farða á skemmtileg stefnumót, eitthvað sem þú hefur gaman að gera. Þannig eyðir þú aldrei dýrmætum tíma í eitthvað sem þú hefur engan áhuga á, með einhverjum sem þú sérð enga framtíð með. Finnið sameiginleg áhugamál strax í byrjun og búið til stefnumót úr því.

Það slæma: Með tækninni getur fólk verið að tala við marga samtímis, samanborið við fyrir nokkrum árum þegar þú áttir einungis samskipti við eina manneskju í einu. Þessi þróun hefur leitt til þess að fólk talar við annað fólk á samskiptamiðlum án þess að einbeita sér að því og jafnvel einungis til þess að styrkja eigin sjálfsímynd. Þannig verður samtalið innantómara og óraunverulegra.

Það allra versta: Verstu leikirnir eru þeir allra þekktustu. Reglurnar sem voru skrifaðar fyrir 20 árum, sem ansi margir fylgja enn, eru nokkuð óhugnalegar. Konum er sagt að þær þurfi að missa kíló og eigi jafnvel að fela eigin persónuleika. Og gamla tuggan að sýna ekki of mikinn áhuga!? – mörg af hamingjusömustu pörunum sem Charly hefur rætt við köstuðu öllum reglum á glæ strax í byrjun og sýndu þess í stað áhuga hvers annars á hvort öðru.

DEILA FRÉTT