Heilsufarslegar afleiðingar kynferðislegrar áreitni eða misnotkunar

Þegar einstaklingar verða fyrir kynferðislegri misnotkun, til dæmis nauðgun, er ljóst að atburðurinn getur haft áhrif á heilsu fórnarlambsins, bæði til skamms tíma sem og til lengri tíma litið. En jafnvel kynferðisleg áreitni, sem ekki felur í sér snertingu eða líkamlegt ofbeldi, getur haft langvarandi áhrif á fólk sem fyrir því verður, bæði tilfinningalega og líkamlega.

Eins og nýlegar fréttir sýna má finna hegðun sem lýsir sér í kynferðislegri áreitni, óæskilegum kynferðislegum samskiptum, þvingunum, niðrandi  athugasemdum og ósiðlegu hátterni – á vinnustöðum, í félagslegum aðstæðum og jafnvel innan stofnanna eins og skóla, íþróttafélaga og trúarsafnaðra.

Slík hegðun getur, eins og áður segir, haft verulega neikvæðar líkamlegar og andlegar afleiðingar fyrir þá sem fyrir henni verða. Hér að neðan má sjá algengustu einkennin sem fórnarlömb kynferðislegrar áreitni og misnotkunar upplifa gjarnan:

 1. Kvíði og þunglyndi
 2. Lítið sjálfsálit og sködduð sjálfsímynd
 3. Félagsfælni og félagsleg einangrun
 4. Lítil og sveiflukennd matarlyst
 5. Of-framleiðsla á streituhormónum
 6. Erfiðleikar við að skjóta niður rótum og stofna til náinna sambanda við fólk
 7. Veikara hjarta og æðakerfi
 8. Vandamál í starfi
 9. Svefnleysi
 10. Þyngdaraukning eða þyngdartap
 11. Áfallastreituröskun

Ef þú eða einhver sem þú þekkir hefur upplifað kynferðislega áreitni og/eða misnotkun, er mikilvægt að þú ræðir hlutina við einhvern sem þú treystir. Það eitt að segja frá getur verið fyrsta og jafnramt mikilvægasta skrefið í átt að bata.

Ef þér finnst óþægilegt að ræða þetta við einhvern sem stendur þér nær, leitaðu þér þá hjálpar með því að ræða við sálfræðing, lækni eða aðra viðeigandi ráðgjafa. Með tímanum getur slík meðferð hjálpað einstaklingnum að þróa með sér aðferðir og leiðir sem hjálpa til við að yfirstíga ofangreind einkenni, í átt að bata og vellíðan.

Listinn var tekinn saman af veftímaritinu Health.

DEILA FRÉTT