Haltu neista sambandsins á lífi með þessum ráðum

Að vera í langtíma sambandi krefst bæði orku, tíma og vinnu. Það er fullkomlega eðlilegt að sambönd þroskist og breytist með tímanum en í lok dags er alltaf mikilvægt að finna fyrir hrifningu og aðdáun gagnvart makanum og halda neistanum á lífi. Annars er hætta á því að sambandið staðni og hrifningin hverfi hægt og rólega.

Hér að neðan eru nokkrar góðar leiðir til þess að tryggja að sambandið sé ferskt og spennandi.

Sýndu ást þína með snertingu
Aukin snerting eykur taugaboð til þess svæðis heilans sem hefur með ást og umhyggju að gera.

Sofið nær hvort öðru
Pör sem eru dugleg að kúra í fangi hvors annars eru líklegri til þess að vera hamingjusamari og ánægðari í sínu sambandi.

Segðu bless við síma og tölvur við matarborðið og í svefnherberginu
Þegar þú slekkur á símanum eða tölvunni ertu mun líklegri til þess að veita maka þínum fulla athygli og þannig eykur þú nándina.

Farið saman í frí
Fara saman í frí getur gert kraftaverk. Það þarf heldur ekki alltaf að vera útlönd, út að borða og rölt í miðbænum er til dæmis fín tilbreyting.

Vertu þakklát/ur
Þakklæti er lykilþáttur í hamingjusömum samböndum og leiðir til aukinar vellíðunar og bættra samskipta. Segðu einfaldlega „takk“ við maka þinn og sýndu þakklæti.

Hentu í einn franskan öðru hvoru
Rannsóknir hafa sýnt að reglulegt kossaflens hefur jákvæð áhrif á sambandið, jafnvel jákvæðari og öflugri áhrif heldur en kynlíf.

Hrósaðu makanum
Hrós er nauðsynlegur hluti af góðu sambandi. Hrós eykur sjálfstraust og sýnir maka þinn í jákvæðara ljósi.

Komdu makanum á óvart
Spenna og nýlunda getur svo sannarlega kveikt neistann í samböndum. Komdu makanum á óvart með því að bjóða henni eða honum óvænt út að borða.

Búið til eitthvað saman
Hvort sem það eru börn, fyrirtæki, heimili eða flugvélamódel (ath: Það er stór munur á börnum og flugvélamódelum), þá getur það gert sambandinu gott að vinna að einhverju í sameiningu.

Kveiktu á daðrinu
Að sýna ástúðlega hegðun og daðra við maka þinn, hvort sem það er með orðum eða snertingu, getur svo sannarlega haldið rómantíkinni á lífi.

Æfið saman
Að taka góða æfingu með maka þínum getur aukið aðdáun og líkamlega aðlöðun. Svo er það líka bara svo skrambi hollt!

Greinin byggir á annarri grein sem birtist á vef Health.com.

DEILA FRÉTT