Glútenlaus matvæli ekki endilega hollari

Það er engin ástæða til að ætla að glútenfrí matvæli séu betri fyrir þig nema þú sért með glúten óþol, segja sérfræðingar.

Glútenlaus lífsstíll hefur orðið að æði um heim allan þar sem jafnvel þeir sem ekki hafa ofnæmi fyrir glúteni skera niður matvæli sem innihalda glúten.

Ein af talskonum þess að glútenlaus lífsstíll sé ekki hollari fyrir þig og gæti þvert á móti verið skaðlegur, er næringar- og meltingasérfræðingurinn Suzanne Mahady, sem starfar við Monash háskólann í Ástralíu. Hún mælir gegn því að fólk taki upp glútenlaust matarræði nema að viðkomandi sé með sannað óþol eða ofnæmi fyrir glúteni.

Hún heldur því fram að glútenlaus matvæli séu ekki hollari en hefðbundin matvæli og geti þvert á móti verið skaðleg heilsu þinni, þar sem matvæli sem innihalda glúten eru gjarnan rík af trefjum sem eru nauðsynleg heilsu okkar.

Nýleg rannsókn sem kom út á síðasta ári styður þessa kenningu en þar kemur fram að trefjar sem fengnar eru úr hveiti geti hjálpað  í baráttunni gegn hjarta- og æðasjúkdómum með því að lækka magn triglycerides í blóðinu.

„Þegar fólk aðhyllist glútenlausan lífsstíl er hætta á að það fái minna af nauðsynlegum trefjum, sem getur aukið hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum,“ segir Suzanne.

Að þessu sögðu er því mikilvægt fyrir þá sem lifa glútenlausum lífsstíl að huga vel að trefja inntöku og þannig lágmarka hættuna á ofrangreindum heilsukvillum.

DEILA FRÉTT