Er þetta ástæðan fyrir aukakílóunum?

Ertu að velta fyrir þér hvers vegna tölurnar á vigtinni verða hærri og hærri með hverri vikunni sem líður?

Ástæðan gæti verið sú að eftir því sem þú þyngist meira, þeim mun erfiðara áttu með að greina óholla sætu og salt í matnum sem þú borðar.

Í rannsókn sem birtist í Journal of Nutrition, sem náði til 93 háskólanema í Bandaríkjunum, kom fram að þeir sem höfðu bætt á sig þyngd, áttu erfiðara með að finna sætt eða salt bragð af mat, sem leiddi þá til þess að borða meira af óhollustu.

Þeir karlmenn sem tóku þátt í rannsókninni bættu að meðaltali á sig 2kg yfir 8 mánaða tímabil. Þeir sem bættu á sig aukakílóum virtust eiga erfiðara með tímanum að greina sætt eða salt bragð af matnum sem þeir borðuðu. Nánar tiltekið, þeim fannst sætur matur verða minna og minna sætur og saltur matur verða minna og minna saltur. Fyrir hvert prósent af aukinni líkamsþyngd  minnkaði hæfni bragðskyns þeirra um 11%.

Þegar manneskja borðar mat sem inniheldur salt og sykur kveikir það á stöðvum í heilanum sem hafa með vellíðan og verðlaunatilfinningu að gera. Þegar hún hættir svo að skynja sæta og salta bragðið framkallar heilinn ekki sömu vellíðunartilfinningu sem gæti leitt til þess að viðkomandi borðar meira af sætindum til þess að finna þessa sömu tilfinningu og áður. Þessir auknu skammtar breytast svo í aukakíló og þannig hefst hringrás sem oft getur reynst erfitt að komast út úr, segir Robin Dando Ph.D. og einn af höfundum rannsóknarinnar.

Samkvæmt sérfræðingum á þessu sviði getur aukin fitusöfnun ýtt undir bólgur í líkamanum sem síðar hafa áhrif á bragðskyn. Samkvæmt þeirri greiningu gæti því reynst gott ráð að borða mat sem ræðst gegn bólgum í líkamanum en auk þess getur líkamsrækt og hreyfing einnig dregið úr bólgum.

Dæmi um mat sem dregur úr bólgum eru ávextir og grænmeti sem og matur sem inniheldur hollar Omega 3 fitusýrur.

Þessi grein byggir á rannsóknum og niðurstöðum sem birtust í grein á vef Men‘s Health.

DEILA FRÉTT