Eiginleikinn sem Steve Jobs leitaði að í starfsfólki sínu

Snilligáfa og óhefðbundnar leiðir fara oft saman og þar var Steve Jobs engin undantekning.

Jafnvel frá upphafi Apple, vissi Jobs að hann vildi búa til eitthvað sérstakt, en hann vissi ekki hver gæti hjálpað honum að breyta sýn sinni í raunverulegar vörur og upplifanir.

Nýtt myndband frá 9. áratugnum hefur nú litið dagsins ljós en þar fjallar Jobs um mistök sem hann í byrjun gerði við mannaráðningar, sem og hvaða eiginleika hann leitaði að í fólki.

Jobs segir að í byrjun hafi hann ráðið „sérfræðinga“ sem stóðu sig engan veginn vel, að hans mati. Hann segir þá hafa verið upp til hópa vitleysinga sem kunnu að stjórna en vissu ekki hvernig ætti að gera nokkurn skapaðan hlut.

Það var þá sem Jobs uppgvötaði, að eigin sögn, að sérfræðingar væru ekki endilega besta leiðin, heldur fólk sem var einstaklega gott í því sem það gerði, þó svo að það væri ekki endilega með sérfræðikunnáttu eða menntun í viðkomandi fagi.
Með öðrum orðum, Steve Jobs leitaði að einum eiginleika umfram aðra; ástríðu, þá sérstaklega ástríðu fyrir því að leysa vandamál.

Upp frá þessu hóf Apple að ráða fólk sem hafði ástríðu fyrir tækninni og gátu þannig skilið hana og notfært sér hana, séð ný tækifæri og tækifæri til frekari þróunar. Steve Jobs vissi að ástríða og eldmóður voru lykilþættir í árangri Apple.

Gott dæmi um slíkt er þegar Jobs réð Debi Coleman, 32 ára gamla konu sem var með gráðu í ensku og MBA frá Stanford. Þrátt fyrir að hafa enga starfsreynslu í framleiðslu- eða tæknigeiranum, blómstraði hún og þremur árum seinna var hún orðin fjármálastjóri fyrirtækisins og stjórnaði meðal annars framleiðslu á Macintosh tölvunum.

Debi Coleman

Í myndbandinu segir Jobs að leiðtogahæfni feli í sér að hafa skýra sýn og getu til þess að miðla sýninni áfram til fólksins í kringum þig, þannig að það geti skilið hugmyndina og þá sameiginlegu framtíðarsýn sem þú hefur í huga þér.

Ástríða, eldmóður og sameiginleg sýn á hlutina var stór partur af fyrirtækjamenningu Apple, samkvæmt viðtölum við núverandi og fyrirverandi starfsmenn fyrirtækisins.
Eftir margra klukkustunda atvinnuviðtöl fengu umsækjendurnir gjarnan að sjá nýju Macintosh tölvurnar, ef þeir sýndu ekki samstundis áhuga þá fengu þeir ekki starfið, er haft eftir fyrrum starfsmanni fyrirtækisins. Hann segir janframt; “Ef við sáum í andliti þeirra aðdáðun og tilhlökkun, vissum við að viðkomandi væri einn af okkur.

DEILA FRÉTT