Ástæður þess að fólk heldur framhjá

Að eiga maka sem er ótrúr er allra jafna ekki ofarlega á lista fólks yfir hluti sem það vill ganga í gegnum en því miður eru allmargir sem upplifa slíkt á lífsleiðinni.

Einkvæni kann að vera hin samþykkta venja samfélagsins en nýlegar rannsóknir sýna að allt að fimmti hver einstaklingur hefur haldið framhjá maka sínum.

Svo virðist vera sem bæði kyn stundi framhjáhald. Algengast er að karlar haldi framhjá með kvenkyns vinnufélögum og konur með karlkyns „vinum“, ef um gagnkynhneigt par er að ræða.

Kveikjan að framhjáhaldi er mismunandi eftir aðstæðum en þó má sjá rauða þræði í samböndum fólks, þar sem annar aðilinn er ótrúr hinum aðilanum.

Breski vefurinn Independent ræddi við sambandsráðgjafann Dee Holmes um algengustu orsakavaldana sem leiða til framhjáhalds.

 

Gremja eða reiði gagnvart makanum

Sumir halda framhjá vegna gremju eða reiði gagnvart makanum. Þegar annar aðilinn upplifir höfnun eða einmannaleika í sambandinu, þar sem hinn aðilinn virðist setja aðra þætti í forgang og veitir viðkomandi sífellt minni athygli, getur það leitt til framhjáhalds þess fyrrnefnda.

Þessa tegund framhjáhalds er hægt að túlka sem þörf á athygli og er eitt skýrasta dæmið um skort á samskiptum og tilfinningalegri nánd í samböndum.

 

Nautnir holdsins

Þegar pör eru ekki að stunda kynlíf og líkamleg nánd er í lágmarki, getur það leitt til þess að annar aðilinn leitar að kynferðislegri og/eða líkamlegri nautn utan sambandsins.

Þessi ástæða er algengur orsakavaldur en tengist jafnframt öðrum tilfinningum, svo sem að upplifa höfnun frá makanum, þá sérstaklega kynferðislega höfnun.

 

Tækifæri

Í sumum tilvikum er framhjáhald orsök þess að annar aðilinn vill fá meiri spennu í líf sitt og upplifa nýja og spennandi hluti. Tilfinningar eins og leiði eða forvitni eru oft kveikjan að framhjáhaldi í samböndum fólks.

 

Óöryggi og löskuð sjálfsmynd

Önnur algeng ástæða þess að fólk heldur framhjá er þegar öðrum aðilanum skortir sjálfstraust og er óöruggur. Fjöldi þátta kann þar að hafa áhrif, svo sem óöryggi gagnvart líkama sínum, starfsferli eða aldri.

Í slíkum aðstæðum getur sá hinn sami haldið framhjá til þess að upplifa aftur tilfinningar sem ýta undir sjálfstraust og styrkja sjálfsímynd.

 

Síendurtekin hegðun

Sumir einfaldlega munu halda framhjá ótt og títt í samböndum með öðrum. Þetta fólk einfaldlega getur ekki hugsað sér að eyða lífinu með einni manneskju. Fyrir þessu geta verið ýmsar ástæður, svo sem vandamál við að tengjast einni manneskju, kynlífsfíkn og þar fram eftir götunum.

 

DEILA FRÉTT