Svona heldur Chris Hemsworth sér í formi

Flestir kvikmyndaáhugamenn kannast við leikarann Chris Hemsworth en hann er hvað þekktastur fyrir hlutverk sitt sem þrumuguðinn Þór í samnefndum kvikmyndum. Þessi ástralski leikari hefur ratað í fjölmiðla undanfarið og á dögunum ræddi hann við tímaritið W Magazine um hvernig hann heldur sér í formi þegar hann þarf að líta út eins og norrænn þrumuguð.

Chris segist ekki láta lyftingar einar og sér duga heldur telur hann fjölbreyttar æfingar lykilinn að árangri.

„Ég var eflaust ögn stærri fyrsta skiptið sem ég lék Þór en á sama tíma var ég mjög stífur og leið hálf óþæginlega í líkamanum. Nú er ég hins vegar búinn að bæta allskyns æfingum inn í æfingaplanið mitt þar sem sveigjanleiki og liðleiki spila stærra hlutverk. Ég geri ansi mikið af box og Muay Thai æfingum, fer á brimbretti og auk þess fer ég mikið í jóga.“

Leikarinn segir æfingar sínar, eins og áður segir, vera fjölbreyttar og þá telur hann að með því að bæta við þolæfingum sé hann að koma líkamanum á óvart og spornar þannig gegn því að stirna upp með tilheyrandi vandamálum.

„Ef ég fann fyrir sársauka á ákveðnu svæði átti ég það til að hlífa því svæði með öllu móti en í dag reyni ég að liðka það svæði til, ekki með miklum æfingum, heldur meira með hreyfingu sem losar eymslin upp.“

Að lokum var Chris spurður hvort frægð og peningar gerðu honum auðveldar fyrir að halda sér í formi, en kappinn taldi að svo væri ekki: „Það er alls ekki rétt. Engar peningaupphæðir geta látið aðra gera vinnuna fyrir þig. Ef þú hefur ekki efni á þjálfara, allt í góðu, fáðu þá vin eða bara einhvern, til þess að hvetja þig áfram. Gerðu æfingar heima í stofu. Það er mjög auðvelt að finna gott æfinga- og matarplan á netinu. Að vera í formi snýst um hvatningu og að taka af skarið og byrja að æfa býr til þá hvatningu.“

DEILA FRÉTT