Allt sem þú þarft að vita um starfstengda streitu

Þegar fjallað er um starfstengda streitu er átt við lífeðlisleg og/eða sálfræðileg viðbrögð við umhverfi og atvikum sem einstaklingurinn upplifir sem ógnandi eða sem mikinn álagsþátt. Sem dæmi má nefna það þegar einstaklingur upplifir mikið starfsálag eða þegar kröfur í starfi fara ekki saman við getu, úrræði eða þarfir hans. Slíkt getur leitt til andlegs og líkamlegs heilusbrests, þá sérstaklega ef álagið er langvarandi. Þannig hefur starfstengd streita bein áhrif á skilvirkni starfsmanna sem og áhrif á starfsánægju, aukinn fjölda fjarvista, hærri slysatíðni, andlega og líkamlega heilsu starfsfólks og líf einstaklingsins utan vinnunar. Þá getur langvarandi streita vegna álags í vinnu leitt til kulnunar í starfi. Þess ber þó að geta að streita getur bæði talist jákvæð og neikvæð og veltur það á einstaklingsþáttum hvernig hver og einn starfsmaður bregst við steritu, út frá tilfinningalegum, sálrænum og félagslegum þáttum viðkomandi

Samkvæmt könnun sem framkvæmd var fyrir hönd Vinnuverndarstofnun Evrópu kom í ljós að 51% starfsfólks í Evrópu telur vinnutengda streitu algenga á sínum vinnustað og þá sögðu fjórir af hverjum tíu svarendum könnunarinnar að ekki sé tekið rétt á starfstengdri streitu á vinnustað viðkomandi. Auk þessa leiddi könnunin í ljós að kvenkyns starfsmenn séu líklegri en karlkyns starfsmenn til þess að segja að vinnutengd streita sé algeng, með 54% kvenna á móti 49% karla. Samkvæmt þessari sömu könnun telja 47% Íslendinga að vinnutengd streita sé ýmist algeng eða mjög algeng en þegar kom að hlutföllum milli kynja virtust íslenskir karlmenn frekar verða varir við streitu á vinnustað (55%) samanborið við 42% íslenskra kvenna („Óöryggi í starfi“, 2013).

Rannsóknir á sviði starfstengdrar streitu hafa sýnt fram á að starfsfólk getur upplifað mikla streitu í starfi ef það upplifir að það hafi ekki þau bjargráð sem þau þarfnast til þess að sinna sínum störfum með sómasamlegum hætti, ef þeir upplifa að starf sitt mæti ekki þeirra persónulegu þörfum og/eða ef þeir telja sig ekki hafa getu til þess að sinna viðkomandi starfi.

Hvernig má ráða bug á starfstengdri streitu

Tilgreindu streituvalda
Komdu auga á þær aðstæður og þá þætti sem valda þér streitu í starfi. Haltu dagbók og skrifaðu niður hvað veldur þér streitu og hvernig þú bregst við því. Vertu hreinskilin og nákvæm/ur þannig að þú getir horft hlutlaus á aðstæður og viðbrögð þín við viðkomandi aðstæðum. Með þessu móti gefst þér tækifæri til þess að koma auga á þá þætti sem valda þér streitu og hvernig þú getir ráðið bug á slíkum aðstæðum.

Þjálfaðu upp jákvæð viðbrögð og hegðun gagnvart streitu
Það hvernig þú bregst við streitu skiptir höfuð máli. Margir bregðast við streitu með neikvæðum hætti, s.s. borða ruslfæði eða leita í aðra fíkn sem gefur augnabliks sælu. Til langstíma munu þessi viðbrögð einungis dýpka vandann og auka á kvíða og streitu. Reyndu frekar að leita til heilsusamlegri þátta þegar þú finnur fyrir streitu. Líkamsrækt og hreyfing er frábært vopn gagnvart streitu. Gefðu þér tíma til þess að æfa og hreyfa þig, borða hollan mat og draga djúpt andann. Fáðu þér göngutúr eða farðu og hittu fjölskyldu og vini. Sinntu áhugamálunum og leitaðu í þá þætti sem veita þér raunverulega gleði.

Settu mörk
Mikilvægur þáttur í því að berjast við starfstengda streitu er að setja sjálfum sér mörk. Of mikið álag í vinnu, stöðugar truflanir frá vinnufélögum og ósanngjarnar kröfur yfirmanna getur leitt til streitu og síðar kulnunar í starfi. Þá er mikilvægt að þú segtjir tímaramma og ákvarðir fastan tíma dags þar sem þú ert í vinnunni. Slepptu því að kíkja á tölvuna og símann eftir kvöldmat og ekki sinna vinnuni allan sólarhringinn.

Taktu þér tíma og endurheimtu orkuna
Það þurfa allir tíma þar sem þeir hvorki eru að sinna vinnunni né hugsa um vinnuna. Reyndu að nýta frídaga þína til þess að loka þig af frá allri vinnu, tæmdu hugann og einbeittu þér að því sem veitir þér gleði. Reyndu að finna tíma með reglulegu millibili þannig að þú getir endurheimt orkuna og mætt til vinnu fullur af jákvæðni og góðri orku. Gættu þess einnig að fá nægan svefn.

Lærðu að slaka á
Hugleiðsla ætti án alls efa að vera hluti af daglegri rútínu í lífi hvers manns. Lærðu að stunda hugleiðslu og nútvitund, farðu í jóga og taktu djúpar öndunaræfingar. Með tímanum muntu læra að slaka betur á, lágmarka streituhormón líkamans og endurstilla huga þinn.

Talaðu við yfirmann þinn
Reyndu að ræða við yfirmann þinn um þá þætti sem valda þér aukinni streitu og vandlíðan. Það er hagur fyrirtækisins að þér líði vel í starfi og því ætti yfirmaður þinn að taka slíku samtali fagnandi og reyna eftir fremsta megni að veita þér þau bjargráð sem þú þarft til þess að líða vel í starfi. Saman ættu þið að búa til gott viðbragðsplan sem þú getur farið eftir þegar streitan bankar upp á. Ef til vill er nauðsynlegt að þú fáir tækifæri til þess að afla þér nýrrar þekkingar, læra tímastjórnun og sækja sjálfshvatningar námskeið sem getur hjálpað þér í þínu starfi og bætt þig sem starfsmann.

Leitaðu hjálpar
Fáðu aðstoð við að yfirstíga streituna sem þú upplifir í bæði leik og starfi. Aðstoðin getur verið fólgin í því að ræða málin við fjölskyldu og vini, yfirmann þinn eða sérfræðing.

DEILA FRÉTT