Áhrif áfalla á hjarta og æðakerfi kvenna

Nýleg rannsókn á 300 konum sem voru annaðhvort að nálgast breytingaskeið eða voru komnar yfir breytingaskeið hefur leitt í ljós að áfall á lífsleiðinni getur haft áhrif á hjarta og æðakerfi kvenna. Rannsóknin náði, eins og áður segir til 300 kvenkyns þátttakenda sem allar áttu það sameiginlegt að vera reyklausar.

Í rannsókninni voru konurnar spurðar að því hvort þær hefðu orðið fyrir stórvægilegum áföllum á lífsleiðinni, svo sem kynferðislegri áreitni, að missa barnið sitt, lent í bílslysi, upplifað náttúruhamfarir, verið rændar eða orðið fyrir líkamlegu ofbeldi.

Þær konur sem upplifað höfðu a.m.k. þrjú af ofantöldum áföllum á lífsleiðinni voru með veikara hjarta og æðakerfi samanborið við þær sem höfðu upplifað færri eða engin áföll.

Í rannsókninni segir að hægari starfsemi innþekjufruma geti leitt af sér meiri hættu á hjartasjúkdómum.

Niðurstöður rannsóknarinnar gætu gagnast við að meta áhrif félagslegra þátta á hjarta og æðakerfi.

Rannsóknin hefur ekki ennþá verið birt í ritrýndu læknariti og niðurstöðurnar hafa því ekki verið staðfestar enn sem komið er.

Vefurinn WebMd greindi frá þessu.

DEILA FRÉTT