7 mínútna æfingahringur með eigin líkamsþyngd getur hjálpað þér að léttast

Flestir vilja halda sér í formi og líta vel út en hafa ekki alltaf tíma til að fara í ræktina í 1-2 klst eftir langan vinnudag. Heilsuþjálfarar fá gjarnan spurningar um hvort hægt sé að komast í form með styttri æfingatímum, þ.e. æfingar sem taka allra jafna minni tíma, jafnvel einungis mínútur úr deginum.

Góðu fréttirnar eru þær að nýleg rannsókn gefur til kynna að svo sé.

Í rannsókninni voru 29 þátttakendum, sem allra jafna stunduðu ekki líkamsrækt en vógu þó í meðallagi, skipt í tvo hópa, þar sem annar hópurinn tók 12 æfingar á 7 mínútum á hverjum degi, á meðan að hinn hópurinn tók engar æfingar. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að hópurinn sem tók 7 mínútna æfingu á dag náði töluverðum árangri samanborið við hópinn sem hreyfði sig ekkert. Eftir sex vikur hafði líkamsfita þeirra minnkað að meðaltali um 2,1 prósent og þá höfðu þátttakendurnir losað sig við um 1kg af fitu. Þess má geta að þátttakendur breyttu hvorki lífsstíl né matarvenjum sínum.

Þessar 12 æfingar samanstóðu af æfingum með eigin líkamsþyngd, s.s. stökk, hnébeygjur, armbeygjur, dýfur, háar hnélyftur, hlaup á staðnum, plankar o.fl. Þátttakendurnir tóku 10 sekúndna hvíld milli æfinganna en hver æfing tók 30 sekúndur.

Slíkar æfingar geta hjálpað líkamanum að byggja upp vöðvamassa og brenna fitu, samkvæmt rannsakendum sem stóðu að rannsókninni.

Það getur þó verið gott að stilla væntingunum í hóf, segir hinn þekkti einkaþjálfari Tony Gentilcore, í viðtali við tímaritið Men‘s Health, þegar hann var spurður um álit sitt.

„Þetta er gott dæmi um að gera eitthvað er alltaf betra en að gera ekki neitt. Vissulega má ná árangri með slíkum æfingum en hægt og rólega mun árangurinn dvína og þú stendur í stað. Ástæða þess er sú að til þess að bæta við meiri vöðvamassa og þannig auka brennslu, er nauðsynlegt að bæta við þyngdum og endurtekningum,“ segir Tony.

Að hans mati er þetta fín byrjun og frábær leið þegar þú hefur ekki aðgang að líkamsrækt eða hefur lítinn tíma til þess að hreyfa þig en til þess að ná langtíma árangri mælir hann með því að bæta við lóðum, æfingum og fleiri mínútum í æfinga rútínuna.

DEILA FRÉTT