6 ástæður þess að þú bætir við þig aukakílóunum sem þú varst að missa

Hver kannast ekki við það að byrja að æfa reglulega og taka sig á í matarræðinu, sem síðar skilar sér í auknu þyngdartapi en svo allt í einu byrja aukakílóin að láta á sér kræla og fyrr en varir ert þú komin/n aftur á byrjunarreit. Hvað veldur þessu?

Sannleikurinn er sá að líkaminn þinn berst bókstaflega gegn því að missa þyngd, útskýrir Bruce Y. Lee, MD, framkvæmdastjóri Global Obesity Prevention Center hjá John Hopkins háskólanum í Bandaríkjunum. Það er vegna þess að þegar þú byrjar að missa kílóin lítur líkaminn á það sem ógn við tilvist þína. Til þess að “vernda þig” hægir hann á efnaskiptunum þínum til að berjast gegn þyngdartapinu, útskýrir hann.

Þetta ferli á sér líffræðilegar skýringar sem teygja sig þúsundir ára aftur í tímann, þegar matur var af skornum skammti. Sá hluti heilans sem stýrir matarlyst hefur verið til staðar í okkur mannfólkinu í mjög langan tíma, en offita aftur á móti, er faraldur sem líkaminn okkar og erfðir, þekkja ekki vel.

Rannsóknir hafa sýnt að þegar einstaklingur missir mikla þyngd á mjög skömmum tíma, er líklegt að sá hinn sami geti bætt á sig aukakílóunum mjög hratt aftur. Góðu fréttirnar eru aftur þær að það eru nokkrir hlutir sem þú getur gert til að berjast gegn þessum vítahring.

Hér að neðan eru sex ástæður fyrir því að kílóin koma of fljótt aftur tilbaka og hvað þú getur gert til að koma í veg fyrir það.

 

  1. Þú gleymir að hugsa um vöðvamassann

Þegar þú missir mikla þyngd, sérstaklega með miklum þolæfingum, þá eru miklar líkur á því að þú missir vöðvamassa líka, sem er ákveðið vandamál. Um leið og þú missir vöðvamassann, áttu auðveldara með að bæta á þig fitu aftur, þar sem vöðvar líkamans taka minna af orku til sín.

Lausnin: Þó svo að þolþjálfun hjálpi þér að missa aukakílóin er nauðsynlegt að taka styrktaræfingar á móti, sem hjálpa þér að viðhalda og jafnvel byggja upp vöðvamassa. Þá er mikilvægt að borða nægt prótein þar sem það hjálpar þér að viðhalda vöðvamassa en prótein leiðir einnig til meiri seddu tilfinningu, sem kemur í veg fyrir ofát.

 

  1. Þú borðar meira en þú gerir þér grein fyrir

Þegar þú léttist, hækka hungurhormónin þín, eins og ghrelin, á meðan hormónin sem gefa þér seddu tilfinningu, eins og leptín, taka dýfu. Því getur þú átt á hættu að bæta á þig aukakílóunum aftur, sérstaklega ef þú varst á ströngu matarrræði sem þú hægt og rólega dregur úr og ferð aftur í gömlu matarvenjurnar.

Lausnin: Gættu þess að fara ekki aftur í fyrra horf þar sem þú borðaðir óreglulega, of mikið og jafnvel óholla fæðu. Haltu matardagbók og reyndu eftir fremsta megni að halda þig við það matarræði sem hjálpaði þér að ná árangri.

 

  1. Þú sleppir morgunmatnum

Morgunmaturinn er kallaður mikilvægasta máltíð dagsins af ástæðu. Að borða morgunmat hjálpar þér að viðhalda efnaskiptunum þínum í gegnum daginn. Því lengur sem þú bíður með að borða, þeim mun meiri dýfu mun blóðsykurinn taka, sem þýðir að þú munt líklega leita í auðveld kolvetni og sykurrík matvæli yfir daginn.

Lausnin: Borðaðu morgunmat! – Og reyndu að hafa hann prótein og trefjaríkan.

 

  1. Þú færð ekki nægan svefn

Svefninn hefur áhrif á heilsufar þitt og þar með talið líkamsþyngdina. Fjölmargar rannsóknir benda til þess að einstaklingar sem sofa 3-6 klukkustundir á nóttu borða meira af kaloríum, samanborið við þá sem fá nægan svefn. Þá eru auknar líkur á því að maturinn sem þú velur, ef þú færð ekki nægan svefn, sé í óhollari kantinum. Ástæða þess er sú að þegar þú sefur ekki nóg kveikir líkaminn á hungur hormónum sem hvetja þig til þess að borða meira. Að auki kemur ónægur svefn raski á serótónin framleiðslu líkamans, sem hefur með skapið þitt að gera og þú leitar því í fæðu sem veitir þér aukna gleði, sem allra jafna þýðir óholl fæða.

Lausnin: Reyndu að ná 7-9 klukkustunda svefn á hverri nóttu.

 

  1. Þínir nánaustu hafa slæm áhrif á þig

Fólkið í kringum þig getur haft gríðarleg áhrif á hvað þú borðar, hvenær þú borðar og hversu mikið þú borðar. Við eigum það til að borða það sem fólkið í kringum okkur borðar. Það gefur því auga leið að ef fjölskyldan, vinirnir eða vinnufélagarnir eru sífellt að borða óhollt, ert þú líklegri til þess að borða óhollt.

Lausnin: Reyndu að fá fólkið í kringum þig með þér í lið. Þið getið hjálpað hvort öðru að borða hollari fæðu. Þá sýna rannsóknir að ef þú ert ábyrgur fyrir heilsu annarra ertu líklegri til þess að hugsa betur um sjálfa/n þig.

 

  1. Þú ert of hörð/harður við sjálfa/n þig

Gott er að hafa það hugfast að líkamsþyngd þín á alltaf eftir að sveiflast til. Margir eiga það hins vegar til að kenna sjálfum sér um þegar aukakílóin koma aftur. Setningar eins og „ég get ekkert haldið mér svona“ eða „þetta mun aldrei ganga til lengdar“ eru býsna algengar hjá fólki. Og áður en þú veist af ertu komin/n í sama gamla farið.

Lausnin: Settu þér langtíma markmið og vertu viðbúin því að vegurinn verði hlykkjóttur. Mundu að þetta er langhlaup, ekki spretthlaup og það er í góðu lagi að mistakast, svo lengi sem þú stendur upp aftur.

DEILA FRÉTT