5 nýársheit sem hjálpa þér að losna við aukakílóin

Er nýársheitið þitt að losna við aukakílóin?

Áður en þú byrjar hins vegar að fullyrða það að þú munir aldrei borða sykur framar, að þú ætlir að missa 20 kíló í janúar og hlaupa 10km á dag, sestu þá niður, andaðu djúpt og slakaðu á. Slík markmið eru vissulega háleit en eiga það oft til að verða of stór biti til að kyngja.

Þú munt ekki missa 20 kíló í janúar! Reyndu frekar að setja þér smærri, mælanlegri markmið sem fela í sér smærri breytingar á þínum lífsstíl. Með þessu móti byrjar þú á þeim hraða sem þú ræður við og smátt og smátt sérðu árangur sem ágerist til lengri tíma litið.

Hér að neðan eru 5 markmið sem fólk gjarnan setur sér en eru e.t.v. ekki nægjanlega markviss, mælanleg og möguleg til lengri tíma litið. Við hvert og eitt markmið má hins vegar finna smærra, mælanlegra og betra markmið sem þú ættir þess í stað að setja þér.

 

Markmið 1. Ég ætla að byrja af fullum krafti í ræktinni!

Breyttu því í: Ég ætla að æfa 4 sinnum í viku í 40 mínútur í senn.

Með þessu móti setur þú þér mælanlegt markmið, þ.e. fjölda skipta sem þú ætlar þér að hreyfa þig sem og tímalengd. Festu þessi fjögur skipti í vikuplanið þitt og gættu þess að fylgja því eftir. Ef markmið þitt er að missa aukakílóin mælum við með bæði styrktar og þolæfingum. Þannig byggir þú upp vöðvamassa og brennir fitu samtímis.

 

Markmið 2. Ég ætla að dragar úr allri streitu og sofa betur

Breyttu því í: Ég ætla að setja mér fastan háttatíma og tryggja 8 klst svefn á hverri nóttu

Oftar en ekki drögum við það að fara í háttinn á tilsettum tíma og eyðum þess í stað dýrmætum klukkustundum í samfélagsmiðla, sjónvarpsgláp eða vinnu. Ef þú hins vegar setur þér fastan háttatíma sem tryggir þér 8 klukkustunda svefn, tryggir þú næga hvíld fyrir líkamann. Of lítill svefn í langan tíma getur leitt til þess að aukakílóunum fjölgar auk annarra fylgikvilla. Hér má lesa grein um svefnleysi og slæmar afleiðingar þess.

 

Markmið 3. Ég ætla að hætta að borða ruslfæði

Breyttu því í: Ég ætla að draga úr sykurneyslu

Sykurneysla í nútíma samfélögum er heilsufarsleg vá. Að setja sér það markmið að draga úr sykurneyslu getur án efa leitt til heilsufarslegs ávinnings fyrir þig. Byrjaðu á því að taka út sykraða gosdrykki, hafðu einn nammidag í viku og gættu þess að halda blóðsykrinum í jafnvægi með því að borða ávexti og grænmeti.

 

Markmið 4. Ég ætla að borða hollari fæðu

Breyttu því í: Ég ætla að borða ávexti og grænmeti með hverri máltíð dagsins, 5 skammta á dag

Ég ætla að borða hollari fæðu er nokkuð almennt og því betra að gera það mælanlegra. Að byrja á því að setja sér markmið um að borða ávexti og grænmeti á hverjum degi er svo sannarlega skref í rétta átt. Flestir borða ekki nægjanlega mikið af ávöxtum og grænmeti og því nauðsynlegt að bæta um betur þar. Ávextir og grænmeti tryggja þér nauðsynleg vítamín, steinefni, trefjar og andoxunarefni sem hjálpa þér að viðhalda góðri heilsu.

 

Markmið 5. Ég ætla að elda oftar heima

Breyttu því í: Á hverjum sunnudegi mun ég setja mér vikulegt matarplan

Að fara út að borða getur verið þægileg lausn en oftar en ekki þýðir það meira magn af ruslfæði, viðbættum sykri og óæskilegum aukaefnum. Reyndu því að temja þér þá reglu að elda og borða heima. Ef þú skipuleggur þig fram í tímann er lítið mál að viðhalda slíku plani og með skipulaginu tryggir þú að hollari valkostir verði ofan á.

DEILA FRÉTT