5 merki þess að sambandið mun ekki endast

Flest sambönd byrja dásamlega. Þið getið ekki látið hvort annað í friði og viljið eyða öllum tímum sólarhringsins saman. Þegar fram líða stundir gætu þessar tilfinningar hins vegar hægt og rólega dvínað. Þegar rifrildunum fjölgar og þið virðist ekki ná saman um mikilvæga hluti, gætir þú farið að efast um sambandið.

Góðu fréttirnar eru aftur á móti þær að það er eðlilegt að spyrja sig slíkra spurninga og ágreiningur og rifrildi er ekki alltaf merki þess að samband þitt sé á enda. Oftar en ekki gætu slíkar uppákomur styrkt sambandið og hjálpað ykkur á næstu stig.

Hins vegar eru nokkrir lykilþættir sem gefa til kynna, umfram aðra þætti, að sambandið sé ekki líklegt til þess að endast. Hér að neðan gefur að líta á umrædda lykilþætti, samkvæmt sambands-ráðgjöfum.

Þið rífist heiftarlega

Það er eðlilegt að ágreiningar og rifrildi komi upp öðru hverju en hvernig þú bregst við því skiptir höfuðmáli og getur gefið til kynna hvort sambandið sé á réttri leið eður ei. Ef rifrildið verður óheilbrigt og skaðlegt, s.s. þegar þið eruð farin að kenna hvort öðru um, gagnrýna, kalla illum nöfnum og þar fram eftir götunum, getur það haft skaðleg áhrif á sambandið til lengri tíma litið. Ef þið getið ekki rætt hlutina í rólegheitum, opnað ykkur og hlustað á skoðanir hins aðilans, er líklegt að sambandið standi höllum fæti.

Þið stundið ekki kynlíf

Vissulega geta komið tímabil í samböndum þar sem kynlífið er af skornum skammti. Fyrir því geta verið ýmsar ástæður, til dæmis streita, barneignir, fjölskyldulífið, vinnan o.fl. Þegar hins vegar umrædd tímabil ílengjast og skortur á kynlífi verður viðvarandi getur það þýtt að annar aðilinn sé ekki eins skuldbundinn sambandinu, eða þá að neistinn sé horfinn.

Þið hafið mismunandi skoðanir varðandi framtíðina

Það kann að hljóma augljóst en ef þið viljið sitthvora hlutina og hafið mismunandi framtíðarsýn, gæti það haft áhrif á samband ykkar. Þættir eins og fjölskylda, barneignir, fjármál, trúarbrögð og lífsstíll eru hlutir sem allir bera sínar væntingar til, en ef væntingarnar eru ekki þær sömu, gæti það gert út af við samband ykkar.

Þú átt erfitt með að láta undan freistingum

Hér er ekki átt við sælgæti og ís! Ef þú finnur til tíðari löngunar að skoða fyrrverandi maka á samfélagsmiðlunum eða skrá þig inn á stefnumótaforrit, s.s. Tinder, gæti það þýtt að þú hafir áhuga á því að líta í kringum þig og jafnvel halda framhjá maka þínum. Það gefur auga leið að slík hegðun leiðir allra jafna til sambandserfiðleika og leiðir líkum að sambandsslitum.

Þú finnur ekki þessa tilfinningu lengur

Stundum veit líkami okkar það á undan huga okkar að sambandinu er lokið. Ef þér líkar ekki lengur við lyktina af maka þínum, reynir að forðast snertingu, kossa og náin kynni, gæti það þýtt að neistinn sé ekki til staðar og sú tilfinning sem þú fannst í upphafi sé nú gjörsamlega horfin. Oftar en ekki táknar þetta endalokin og sambandið mun hægt og rólega fjara út.

 

DEILA FRÉTT