5 hugsanamynstur sem hjálpa þér aftur á rétt ról

Það er ansi líklegt að þú hafir sett þér það markmið að endurræsa líkamsræktarplanið og taka til í matarræðinu þínu nú í byrjun árs. Hjá einhverjum gætu hins vegar þessi háleitu markmið hafa skolast örlítið til, þar sem annir í vinnu, krefjandi fjölskylduaðstæður og erfiðleikar við að rétta sig við eftir jólahátíðina, geta sett strik í reikninginn.

Það sem skiptir mestu máli í slíkum aðstæðum er að anda djúpt og tala ekki niður til þín. Það að þú hafir ekki náð í ræktina 5 sinnum í síðustu viku, að þú hafir ekki náð að forðast sykurinn eða rauðvínið, er í góðu lagi.

Að viðhalda æfingarplani og matarræði er ekki alltaf auðvelt og stundum mistekst okkur. Það síðasta sem við ættum að gera við slíkar aðstæður er að skamma og tala niður til okkar sjálfra. Hinn þekkti geðlæknir, Andrew Walen, varar við hættunni á því að vera of hörð við sjálf okkur þar sem það getur leitt til aukins kvíða og jafnvel þunglyndis. Þess í stað eigum við að byggja okkur sjálf aftur upp eftir að hafa farið út af sporinu og hann mælir með eftirfarandi fimm ráðum sem gott er að hafa í huga þegar við upplifum vanmætti gegn eigin áskorunum og markmiðum.

Farðu með möntru

Þetta kann að hljóma furðulega segir Andrew en að fara með einhverskonar möntru, tala við sjálf okkur á jákvæðum nótum eða syngja upplífgandi lag, getur hjálpað okkur aftur inn á rétta braut. Þannig beinir þú athyglinni að jákvæðni og kveður burt neikvæðar hugsanir. Næst þegar þú missir af líkamsræktinni, segðu þá við sjálfa/n þig að þú lítir eftir sem áður „askoti“ vel út.

Eyddu orðinu „Ég ætti“ úr huga þínum

Þegar þú heyrir sjálfa/n þig hugsa „ég ætti að gera þetta“ eða „ég þyrfti að gera hitt“ skaltu eftir fremsta megni reyna að leiða hugann að öðru. Sem dæmi, ef þú situr í sófanum að horfa á uppáhalds þættina þína og þú byrjar að hugsa að þú ættir frekar að vera í ræktinni, slökktu þá á slíkri hugsun, til dæmis með því að spjalla við fjölskylduna þína, einbeita þér að þáttunum sem þú ert að horfa á eða annað sem gæti virkað fyrir þig. Setningar sem þessar koma í veg fyrir að þú njótir augnabliksins og í stað þess ferðu að skapa neikvæð hugrenningartengsl sem geta dregið þig niður. Taktu „Ég ætti“ og „ég þyrfti“ úr orðabókinni þinni.

Farðu í föt sem klæða þig vel

Þér ætti aldrei að líða illa í eigin skinni og ef slíkar hugsanir láta á sér kræla er tími til kominn að opna fataskápinn og fara í eitthvað sem klæðir þig vel og vekur hjá þér sjálfsöruggi og aðdáun. Fötin skapa manninn (og konuna líka) og því skaltu skapa eitthvað stórkostlegt, þannig breytir þú neikvæðri líkamsímynd í jákvæða.

Ekki festa þig í neikvæðu tali annarra

Við lifum í samfélagi þar sem fólk er stöðugt að gagnrýna eigin líkamsímynd. Slíkt tal getur smitað út frá sér og áður en við vitum af erum við farin að gagnrýna sjálf okkur og eigin líkama. Forðastu því slíkar umræður og reyndu að hvetja aðra til þess að tala vel um sjálfa sig og helst tala bara um eitthvað allt annað en líkamlegt útlit öllum stundum.

Sýndu sjálfri/sjálfum þér kærleika og fyrirgefningu

Þegar okkur mistekst að ná markmiðum okkar, sem allra jafna eru undir áhrifum frá samfélaginu sem við lifum í, eigum við það til að hugsa neikvætt og brjóta okkur sjálf niður andlega. Sýndu sjálfri/sjálfum þér kærleika og vertu tilbúin/n að fyrirgefa sjálfum þér þegar þér mistekst. Líkamsrækt og matarræði eiga ekki að vera þættir sem draga okkur niður, þessir þættir eru ekki markmiðið sjálft, heldur hluti af því hamingjusamlega lífi sem þú átt skilið að lifa. Njóttu því alls þess sem lífið bíður upp á og ekki festa þig í neikvæðum hugsunum eða staldra við eigin mistök. Stattu aftur upp og haltu áfram.

DEILA FRÉTT