5 holl og góð millimál sem gott er að hafa við höndina

Oftar en ekki eigum við erfitt með að standast óhollu millimálin sem finnast í hverju horni. Hver kannast ekki við það að maula á kexi í vinnunni, grípa súkkulaðistykki á bensínstöðinni eða gæða sér á bragðgóðu sætabrauði úr bakaríinu á horninu? Ef þú vilt hins vegar komast í gott form og missa aukakílóin er gríðarlega mikilvægt að standast þessar freistingar og þá er nauðsynlegt að hafa hollari valkosti við höndina. Það er ágætis regla að borða þrjár góðar máltíðir á dag, þ.e. morgunverð, hádegisverð og kvöldverð og utan þess má bæta við tveimur millimálum. Þessi millimál mega vera um 200 kaloríur, hvert fyrir sig og ættu undir öllum kringumstæðum að innihalda góðar fitur, prótein og trefjar.

Ef þú vilt segja aukakílóunum stríð á hendur skaltu halda þig við holl og góð millimál. Hér að neðan má finna fimm góðar hugmyndir að hollu og bragðgóðu millimáli.

  1. Ristaðar kjúklingabaunir

Þegar kemur að millimáli eru kjúklingabaunir e.t.v. ekki ofarlega á listanum hjá þér. Ristaðar kjúklingabaunir eru hins vegar stökkar, bragðgóðar og meinhollar. Einn 200 kaloría skammtur af kjúklingabaunum mun gefa þér góða fyllingu í magann ásamt því að næra líkamann af próteini og hinum ýmsu steinefnum, s.s. járni, kalki, magnesíum og fosfór.

  1. Prótein stykki

Þau eru jafn mörg og þau eru misjöfn. Prótein stykki koma í öllum stærðum og gerðum og sum hver henta vel sem hollt millimál. Gættu þess þó að velja próteinstykki sem innihalda ekki mikinn sykur eða gervisætu.

  1. Grísk jógúrt með höfrum

Grísk jógúrt með höfrum er ekki bara holl heldur bragðgóð líka. Jógúrtin sjálf er full af góðu próteini á meðan hafrarnir tryggja þér nægilegt magn af hollum trefjum.

  1. Banani með hnetusmjöri

Bananar eru stútfullir af vítamínum og steinefnum. Þeir gefa þér góða orku og eru tilvaldir sem millimál. Bættu við smá hnetjusmjöri og þá ertu komin með hina heilögu þrennu millimálsins; prótein, trefjar og fitu.

  1. Baunasúpa eða seðjandi grænmetissúpa

Góð súpa hentar vel sem millimál, sérstaklega yfir köldustu vetrarmánuðina. Baunasúpur eru fullar af næringarefnum og það sama má segja um grænmetissúpur. Það er þó mikilvægt að velja vel og reyna að sniðganga súpur sem innihalda mikið af aukaefnum, hveiti, sykri og þar fram eftir götunum.

 

Þessi grein byggir á annarri grein sem birtist í veftímariti Women‘s Health.

DEILA FRÉTT