5 góðir próteingjafar til að bæta við matarræðið

Hvort sem þú ert ein/n af þeim sem elskar að elda, eða vilt bara henda öllu í blandarann og þamba á tveimur mínútum, þá er mikilvægt að fæðan þín sé rík af hollum próteingjöfum. Fyrir þá sem finnst best að matreiða fæðuna ofan í sig verður kjúklingur gjarnan fyrir valinu sem próteingjafi og þeir sem notast við blandarann grípa gjarnan í gamla góða próteinduftið, enda hentug lausn í amstri dagsins.

Hér að neðan eru hins vegar 5 frábærir valkostir sem henta bæði í eldamennskuna sem og í sjeikinn. Þessir valkostir eiga það sameiginlegt að vera stútfullir af góðu próteini og öðrum nærringarefnum.

 

Kjúklingabaunir

½ bolli inniheldur 5gr af próteini

Kjúklingabaunir eru stútfullar af próteini og fátt bragðast betur en góður hummus gerður úr kjúklingabaunum. Þá blandast þær vel saman við matgóðan sjeik

 

Graskersfræ

2 msk innihalda 5gr af próteini

Graskersfræ henta vel með nánast öllu. Hægt er að bæta þeim við salatið, í hrökk-kexið eða snögg-steikja á pönnu upp úr olíu og salti og borða sem snakk. Graskersfræin eru einnig tilvalin í góðan grænmetis sjeik

 

Grísk jógúrt

50gr af grískri jógúrt inniheldur 5gr af próteini

Hið fullkomna millimál. Auðvitað er skyrið alveg jafn gott og gríska jógúrtin, en okkur fannst gaman að setja alþjóðlegan blæ á þessa grein og völdum því gríska jógurt. Hún hentar vel ein og sér en þá má einnig nota gríska jógúrt fyrir hollustu eftirrétti eða sem bragðgóðan morgunverð með hunangi og höfrum. Grísk jógúrt er fullkomin út á bragðgóðan ávaxta sjeik, þar sem hún gefur þykka áferð.

 

Heilir hafrar

½ bolli inniheldur 5gr af próteini

Gamli góði hafragrauturinn. Það er góð ástæða fyrir því að hafrar hafa verið á morgunverðarborði landsmanna í áratuga raðir. Það má hins vegar gera margt annað við hafra en að sjóða þá. Bættu höfrum út á jógúrt, bakaðu hafrabrauð og hafraklatta, svo fátt eitt sé nefnt. Hafrar eru einnig frábærir í sjeikinn.

 

Brokkolí

100gr innihalda 3gr af próteini

Eitt allra hollasta grænmetið. Notaðu brokkolí sem meðlæti við góðan kjúklingarétt og bættu brokkolí við grænmetis sjeikinn.

 

 

DEILA FRÉTT