Kynlíf er eflaust ekki það fyrsta sem þú hugsar þegar þú ert að berjast við að finna vekjaraklukkuna og ýta á „snooze“ takkann. Þú ættir hins vegar ekki að láta morgunþreytuna stoppa þig í að stunda kynlíf með maka þínum þar sem þessi skemmtilega morgunleikfimi getur haft ýmsa kosti fyrir sambandið þitt, huga þinn og líkama, samkvæmt Megan Fleming, doktor í kynlífs- og sambandsráðgjöf.

Megan telur upp nokkra góða kosti þess að stunda kynlíf á morgnanna. Ef þú ert tiltölullega morgunglöð manneskja, þá ættir þú ekki að hika við að bregða á leik áður en þú færð þér fyrsta kaffibollann þinn.

  1. Þú ert úthvíld/ur og til í tuskið

Gott kynlíf ræðst gjarnan af því hversu úthvíld/ur þú ert. Ekkert hefur verri áhrif á kynlífið en kvíði og streita, þreyta eða almenn vanlíðan. Oftar en ekki erum við þreytt á kvöldin eftir erfiðan vinnudag og finnum fyrir minni kynlöngun. Því getur góð og ástríðufull morgunstund einmitt verið lausnin fyrir þig. Eftir góðan svefn og hvíld er orkan þín í toppstandi á meðan streita og annasamar hugsanir eru í algjöru lágmarki.

  1. Testósterón framleiðsla karlpeningsins er í hámarki

Testósterón er lykilhormón fyrir karlmenn þegar kemur að kynlífi. Aukið testósterón leiðir af sér aukna kynhvöt og því getur morguninn, þegar testósterón framleiðslan er í hámarki hjá honum, verið góður tími fyrir til þess að stunda kynlíf, fyrir ykkur bæði.

  1. Hugurinn er milli svefns og vöku – sem hefur sína kosti

Þú ert nokkurn veginn ennþá að vakna og hugurinn er á þeim stað að fljóta nokkuð frjáls, án þess að vera að huga að öllum þeim verkefnum og skyldum sem þín bíða, sem gjarnan veldur streitu. Þetta getur því verið fullkomin stund fyrir þig þar sem þú einbeitir þér betur að líðandi stundu og þar af leiðandi að þessari dásamlegu stund með maka þínum. Fyrir vikið verður kynlífið nánara og oft á tíðum betra.

  1. Þú byrjar daginn með brosi

Að stunda kynlíf og fá fullnægingu kveikir á þeirri hormónastarfsemi líkamans sem lætur þér líða vel. Þó svo að þessi gleðihormón séu alltaf vel þegin, er ekkert betra en að kveikja á þeim árla dags og fara glaður eða glöð inn í daginn.

  1. Brýtur upp vanann

Sú hugsun að kynlíf eigi fyrst og fremst að eiga sér stað á kvöldin er ansi lífsseig í vestrænum samfélögum. Kvöldin geta hins vegar oft verið vondur tími til þess að stunda kynlíf, þar sem þið eruð bæði þreytt eftir langan og strangan vinnudag og viljið fátt annað gera en að sitja upp í sófa og slaka á yfir sjónvarpinu eða fara snemma í háttinn. Þannig getur gott morgunkynlíf brotið upp þessa rútínu og verið skemmtileg tilbreyting fyrir samband ykkar.

DEILA FRÉTT