5 góðar ástæður fyrir því að borða epli

Ef þig vantar eina góða ástæðu fyrir því að borða epli þá er ansi auðvelt að nefna hana – þau eru syndsamlega safarík og góð!

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að það eru fjölmargar aðrar góðar ástæður fyrir því að borða epli, þá sérstaklega þegar kemur að heilsu þinni.

Ef þú fékkst þér epli í morgun og langar að vita um þann heilsufarslega ávinning sem þú gafst sjálfum þér þann morguninn, haltu þá áfram að lesa og síðast en ekki síst – haltu áfram að borða epli!

 

Epli eru stútfull af næringu

Epli innihalda mikið magn trefja en auk þess má finna C vítamín, kalíum, K vítamín, B vítamín og önnur mikilvæg næringarefni.

Epli geta hjálpað í baráttunni við aukakílóin

Þar sem epli innihalda mikið magn af trefjum og vatni geta þau hjálpað að slá á matarlyst og leitt til seddu tilfinningar. Í rannsókn einni kom fram að þeir þátttakendur sem borðuðu epli fyrir máltíð fundu fyrir aukinni seddu tilfinningu samanborið við þá sem ekki átu epli fyrir máltíð.

Epli eru góð fyrir hjartað

Rannsóknir hafa sýnt að epli geta minnkað hættuna á hjartasjúkdómum. Ástæðan kann að vera mikið magn uppleysanlegra trefja, er finna má í eplum, sem hjálpa að lækka kólesteról í blóðinu.

Þau gagnast meltingunni og þörmunum

Epli innihalda pektín sem er tegund af trefjum sem hjálpar til við að næra góðu bakteríuflóruna í þörmunum. Þetta getur nýst líkamanum við að koma í veg fyrir offitu, sykursýki tvö og hjartasjúkdóma.

Epli geta dregið úr líkum á krabbameini

Rannsóknir hafa sýnt að epli geti hjálpað til við að minnka líkurnar á krabbameini.

DEILA FRÉTT