3 góðar magaæfingar sem hægt er að taka heima við.

Hvort sem þú elskar eða hatar þær þá eru magaæfingar nauðsynlegur hluti af æfingaplani þínu. Sem betur fer eru til fjöldinn allur af magaæfingum og því óþarfi að binda sig við sömu leiðinlegu æfinguna dag eftir dag. Það sem er jafnvel enn betra er að fjölmargar magaæfingar krefjast ekki sérstakra aðstæðna eða tækjabúnaðar og þú getur því þjálfað magann hvar og hvenær sem er, til dæmis heima við.

Vefurinn Women‘s Health tók á dögunum saman þrjár skemmtilegar æfingar sem hjálpa þér að byggja upp sterka magavöðva. Þessar æfingar eiga það allar sameiginlegt að vera tilvaldar fyrir þá sem ekki hafa tíma til þess að bruna í ræktina og kjósa þess í stað að æfa heima við.


Planki með hreyfingu
Þú byrjar í planka stöðu með lófa flata, olnboga í gólfi og beint undir öxlum. Fætur þráðbeinir með tærnar í gólfi. Gættu þess að spenna magavöðvana og draga naflann inn á við. Réttu því næst úr hægri hönd og svo þeirri vinstri þannig að þú kemur upp í armbeygjustöðu. Farðu svo rólega aftur í byrjuanarstöðuna, hönd fyrir hönd. Endurtaktu hreyfinguna eins oft og þú getur í 50 sekúndur. Gott er að skiptast á með vinstri og hægri hönd, þ.e. byrja að rétta úr vinstri og svo hægri, síðan öfugt, koll af kolli.


Magarúlla og stökk
Sittu á dýnu á gólfinu með fætur útréttar. Láttu bakið loks síga niður í gólf, hryggjalið fyrir hryggjalið og lyftu mjöðmunum upp í loft. Notaðu hendurnar til þess að halda jafnvægi. Notaðu því næst sveifluna og rúllaðu þér niður í byrjunarstöðuna en í stað þess að stöðva þar setur þú iljar og hæla í gólf, beygjir fæturnar saman og spyrnir þér upp í standandi stöðu þar sem þú stekkur frá dýnunni með beinan líkama og hendur upp í loft. Þegar þú lendir beygjir þú lappirnar og ferð aftur í byrjunarstöðu. Taktu 10 endurtekningar.


Hallandi snúningur
Sittu á gólfinu, hendur beint fram í axlahæð með handklæði strekkt milli handanna. Hallaðu þér aftur og lyftu löppunum upp, með hnéin örlítið beygð. Gættu þess að spenna vel kviðinn. Taktu því næst og farðu með hægri endann á handklæðinu í átt að gólfinu og láttu axlir og búkinn fylgja með í sömu átt. Sveigðu svo rólega tilbaka og yfir á hina hliðina. Þú ættir að finna góða spennu í magavöðvunum, þá sérstaklega út til hliðana. Endurtaktu þessar hreyfingar 20 sinnum.

DEILA FRÉTT