3 þættir LKL matarræðisins sem nýtast öllum

Vinsældir LKL matarræðisins hafa verið miklar undanfarin ár og umræðurnar um kosti þess og galla hafa eflaust ekki farið framhjá mörgum. Ef marka má frásagnir fólks hafa margir náð stórkostlegum árangri á LKL matarræði á meðan aðrir hafa lagt árar í bát á miðri leið. Það má rökræða um það hvort LKL henti öllum en þó er ljóst að hægt er að taka jákvæða punkta úr þessum vinsæla lífsstíl sem ættu að nýtast öllum í leit þeirra að betri heilsu.

Hér fyrir neðan má finna þrjá þætti sem einkenna LKL matarræði og ættu að henta öllum þeim sem vilja bætta heilsu og vellíðan.

  1. Segðu bless við einföld kolvetni

Það fyrsta sem þú þarft að kveðja þegar kemur að LKL lífsstílnum eru einföld kolvetni. Þessi bragðgóðu en óhollu kolvetni má finna í t.d. hvítu brauði, kexi, pasta og pizzum. Ef vel á að vera ættir þú líka að forðast einföld kolvetni, sama hvaða matarræði þú fylgir.

  1. Ekki forðast holla fitu

Á 10. áratug síðustu aldar var fátt vinsælla en fitusnauðir megrunarkúrar. 12“ brauðbátar voru auglýstir hollir þar sem þeir innihéldu litla sem enga fitu og avókadó var versti óvinur mannsins. Nýlegar rannsóknir hafa aftur á móti sýnt að hollar fitur eru okkur lífsnauðsynlegar og því mikilvægt að fá nóg af góðum fitum.

  1. Borðaðu vel af grænmeti

Eitt það allra jákvæðasta við LKL er áherslan á grænmeti. Í grænmeti er að finna lítið af kolvetnum en aftur á móti mikið af vítamínum, steinefnum, andoxunarefnum og jafnvel próteini. Hafðu það fyrir reglu að borða grænmeti daglega með fjölbreyttum hætti.

DEILA FRÉTT